laugardagur, 30. júní 2007

Mikið er gott hvað Morgunblaðið er duglegt að skilgreina veruleikann. Af Staksteinum í dag fræddist ég um það að blogg er "í raun og veru ekkert annað en blaðagreinar sem eru birtar á netinu og skrifaðar í svolítið öðrum stíl."

Ég hef augljóslega vaðið í villu og svíma í meira en fimm ár. Nú er spurning hvað er til ráða. Á ég að eyða þessari síðu þar sem hún fellur ekki undir skilgreiningar Moggans á bloggi? Eða á ég að senda Mogganum nokkrar af færslunum mínum með ósk um birtingu á þeirri forsendu að þetta sé blogg og þar með blaðagreinar samkvæmt skilgreiningu Staksteina? Eða á ég kannski bara að hlæja meinfýsnislega að því að grjótkastarinn skuli hafa þrusað staksteininum beint í hausinn á sér?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli