mánudagur, 25. júní 2007

Ísfólksgetraunaruppgjör

Það hefur farist fyrir í meira en viku að gera upp Ísfólksgetraunina en eins og sjá hefur mátt í hægri dálkinum sigruðu Sölvabakkasystur með glæsibrag og fengu 21 stig en Mummi stóð sig líka frábærlega og hlaut 16 stig. Þeim er hér með öllum boðið í mat við tækifæri - þar sem verðlaun verða afhent - og Hafdís má mjög gjarnan koma með Mumma þótt hún hafi bara lesið Ísfólkið einu sinni (sem ég hélt að væri ómögulegt; alveg var ég viss um að annaðhvort hlyti fólk að hafa lesið flestar bækurnar a.m.k. fimm sinnum eða bara alls ekki).

Skemmtilegast væri ef þau gætu komið öll í einu en ef það reynist ómögulegt vegna fjölbreyttrar búsetu hópsins verður bara að hafa það, þá verða matarboðin a.m.k. tvö. Guðnýju er boðið líka, enda var það hún sem kom mér á bragðið með Ísfólkið sumarið 1983 þegar ég var átta ára og hún á ellefta ári. Hvorug beið nokkurt tjón á sálu sinni svo ég viti. Annars er kannski best að aðrir dæmi um það.

Annars þakka ég þátttakendum frábæra skemmtun. Það var léttir að sjá að fleiri en ég muna undarlegustu smáatriði úr bókunum og hafa lesið þær oftar en tölu verður komið á - það er án efa heilmikill vitnisburður um að það sé virkilega eitthvað sérstakt við þær. Allavega er deginum ljósara að þær eru af öðrum toga en flatneskjulegustu rauðuseríubækur þar sem engu skiptir hvort ein bók er lesin fimm sinnum eða fimm bækur einu sinni. (Ekki að það sé neitt að því, það er bara öðruvísi.)

Meðan á þessu stóð var líka í gangi getraun um bókina í handtöskunni sem flestir hunsuðu en Kristín Parísardama sýndi mikla þrautseigju og giskaði réttilega á höfundinn (Pierre Bourdieu) á endanum. (Hún má endilega koma í heimsókn í næstu Íslandsferð og innheimta verðlaun.) Tilvitnunin var úr grein sem heitir "Myndbreyting smekksins" en það væri hægt að velta upp mörgum spennandi spurningum um smekksatriði í tengslum við Ísfólksbækurnar. Kannski ætti ég að skipta um MA-ritgerðarefni og gera viðtökurannsókn á Ísfólkinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli