fimmtudagur, 13. júní 2002

Æ, æ, æ — sumir eru eitthvað að skjóta á mann. Það verður að hafa það. Er vissulega búin að vera óheyrilega ódugleg að blogga. En veðrið er líka búið að vera alltof gott til að það sé nokkur leið að halda sig heima og við tölvuna.

Fór niður í bæ eftir vinnu í dag, fékk mér að borða á kaffihúsi, sat úti, og þótt borðið væri í skugga var ég að stikna, jafnvel þótt ég færi úr jakkanum og sæti þarna á stuttermabol. Sehr gut. Skrilljón manns á Austurvelli, þar á meðal Falun Gong fólk að gera æfingar. Skil ekki hvað íslensk stjórnvöld eru að hugsa í því máli. Sennilega hafa þau einmitt ekki hugsað.

Þrátt fyrir góða veðrið dreif ég mig í bíó í gærkvöld, því ein af fáum góðum ástæðum til að vera inni þessa dagana er að það er loksins farið að sýna Curse of the Jade Scorpion, „nýjustu“ Woody Allen myndina, sem er reyndar orðin ársgömul (og ekki lengur nýjasta myndin hans). Hvað er að bíóunum hérna? Ef það er búið að skjóta tvö þúsund milljón byssukúlum áður en tíu mínútur eru liðnar af bíómynd er hún sýnd med det samme. Annars þarf maður að bíða og bíða og bíða og bíða og bíða. Og bíða ennþá lengur.

Myndin var verulega skemmtileg. Frábærlega galin hugmynd að láta mynd ganga út á dáleiðslu að hætti Andrésar andar blaða! Það var líka frekar fyndið að hafa ýmislegt í anda film noir en alla líkamstjáningu persónanna o.þ.h. fullkomlega nútímalega. Og samansúrruðu blammeringarnar sem gengu á víxl milli aðalpersónanna. Dásamlegar.

— — —

Var fyrir norðan um helgina, því Arna frænka mín á Grænavatni var að fermast. Þau voru þrjú, fermingarbörnin í Skútustaðakirkju, og öll náskyld, þannig að Mývetningar höfðu nóg að gera í fermingarveislum þennan dag. Mjög gaman. Svo heldur stíft prógramm áfram; ég fer aftur norður um næstu helgi því Kári lillebror er að verða stúdent frá MA eins og fleiri í fjölskyldunni. Dagarnir kringum sautjánda júní eru reyndar að verða skipulagðir nokkur ár fram í tímann. Á næsta ári verður Brynja, systir fyrrnefndrar Örnu, stúdent og á þarnæsta ári verð ég — úpps — tíu ára stúdent. Frekar ískyggilegt. Hef ábyggilega reiknað vitlaust.

Alla vega sagði þetta próf mér að ég væri bara 23 ára. Og á laugardaginn giskaði ellefu ára stelpa (sem vildi vita hvað ég væri gömul) á að ég væri tvítug. Var frekar sátt við það þangað til mamma benti mér á að í augum ellefu ára stelpna væri tvítugt ekkert sérlega ungt! En miðað við að hún hefði þá alveg eins getað giskað á að ég væri fertug finnst mér alveg ástæða til að gleðjast yfir þessu.

En ég var sem sagt fyrir norðan um helgina. Á leiðinni suður aftur kveikti Þorgerður — enn ein frænka mín (sem ég fékk far með) — á íþróttalýsingum í útvarpinu. Hef ekki heyrt svoleiðis lengi og var búin að gleyma hvað þær geta verið fyndnar. Óvart fyndnar. Íþróttafréttamaðurinn sem lýsti landsleik Íslendinga og Makedóníumanna í handbolta kom með hverja myndlíkinguna af annarri; samkvæmt honum fóru Íslendingar gegnum vörn hinna „eins og hnífur gegnum bráðið smjör“ og ég veit ekki hvað og hvað. Fyndnast var samt þegar hann kom með hástemmdar yfirlýsingar um hvernig þyrfti að heiðra handboltalandsliðið fyrir „framlag sitt til íslenskrar þjóðmenningar“!

— — —

Er nýbúin að skipta um vinnu, einu sinni enn. Seinni partinn í vetur var ég að vinna við skjalalestur hjá Alþingi í afleysingum. Hefði kannski ekki búist við því fyrirfram að mér myndi líka það vel, en raunin varð sú að ég kunni virkilega vel við mig. Gæti alveg hugsað mér að vinna þar aftur.

En ég var bara ráðin út maí, þannig að þarsíðasti föstudagur (31. maí) var síðasti vinnudagurinn minn þarna að sinni. En það var í góðu lagi, því mánudaginn á eftir (3. júní) byrjaði ég að vinna hjá Eddu, og verð þar næstu mánuði að lesa prófarkir og eitthvað þess háttar.

Þegar ég var að leggja af stað í vinnuna fyrsta daginn hugsaði ég með mér: „Eru mistök að byrja í dag? Mánudagur til mæðu?“ En ég hristi hjátrúna samstundis af mér og hélt óhrædd af stað út á strætóstoppistöð. Svo kom strætó. Það var nýr bílstjóri á fimmunni. Sumir bílstjórar hefðu kannski verið búnir að læra leiðina sem þeir eiga að keyra áður en þeir byrja, en þessum tókst að gleyma að beygja út af Suðurgötunni. Hann uppgötvaði það þó skömmu seinna en þá voru góð ráð dýr. Í fyrstu hélt hann greinilega að hann slyppi auðveldlega frá þessu og ætlaði að að taka u-beygju á móts við Háskólabíó. Það gekk ekki sérlega vel. Þegar stóri guli bíllinn var búinn að vera þversum á gatnamótunum um stund (öðrum bílstjórum sem höfðu hugsað sér að aka eftir götunni án efa til gríðarlegrar ánægju) gafst maðurinn upp og beygði inn á planið hjá bíóinu þar sem hann hugsaði sér greinilega að fara smáhring til að komast svo aftur út á Suðurgötuna. Leiðin sem hann ætlaði að fara var hins vegar lokuð. Þannig að við héldum áfram að rúnta um planið hjá Háskólabíói. Á strætó. Það var mjög athyglisvert. Á endanum tókst bílstjóragreyinu þó að snúa við og komast þangað sem hann ætlaði sér.

Þar með var strætóævintýrum morgunsins þó ekki lokið. Á Lækjartorgi kom inn maður sem virtist frekar einkennilegur í kollinum og var auk þess verulega drukkinn af lyktinni o.fl. að dæma. Hann byrjaði að tala hátt og mikið við sjálfan sig, sem var svo sem allt í lagi, maður er ýmsu vanur í strætó. Svo virtist honum finnast þetta heldur takmarkað og sneri sér að því að áreita allt kvenfólk sem sat nálægt honum. Leiðin upp Hverfisgötuna var óvenjulöng í þetta skiptið, ég var ekki sú eina sem reyndi að líma augun við bók eða blað og láta eins og ekkert væri. Varpaði öndinni verulega mikið léttar þegar maðurinn fór úr á Hlemmi.

Síðan komst ég á Suðurlandsbraut 12 þar sem ég átti að fara að vinna. Ég gekk inn um útidyrnar og að lyftunum. Á þeim hékk miði: „Lyfturnar eru bilaðar.“ Og ég þurfti að komast upp á sjöttu hæð.

Þetta var eitt af þessum krítísku augnablikum þar sem maður spyr sjálfan sig: „Á ég að fara heim, leggjast upp í rúm, breiða sængina upp fyrir haus og skæla? Eða á ég að takast á við erfiðleikana og sigrast á þeim með bros á vör?“ Þetta var sérlega erfið ákvörðun. Niðurstaðan varð þó að leita að stigunum og ganga upp þá. Mér tókst meira að segja að hitta á rétta hæð, ólíkt því sem gerðist einu sinni þegar ég tók stiga fram yfir lyftu í heilsubótarskyni. Þá var ég á leiðinni upp á fjórðu hæð í viðkomandi húsi. Þegar ég hélt að ég væri komin þangað reyndist ég vera á sjöttu hæð. Manni gengur misvel að átta sig á tölum.

En á Suðurlandsbrautinni átti ég sem sagt að fara upp á sjöttu hæð og komst þangað í fyrstu tilraun. Þá var hörmungunum líka lokið að þessu sinni, og mér líst vel á mig í vinnunni. Ekki síst núna þegar ég er með próförk að þýðingu á krimma á borðinu mínu. Mjög ánægð með að fá borgað fyrir að lesa glæpasögur.

Jæja, ætli ég sé ekki búin að ofvirkniserast nóg í blogginu í bili. Hah!

Held að ég hætti að hafa áhyggjur af því hvað veðrið er búið að vera frábært lengi — er á meðan er, og það er engin ástæða til að velta sér upp úr þeirri óumflýjanlegu staðreynd að veðurblíðan verður ekki eilíf. Þó það eigi eftir að koma rigning og slagviðri — þá kemur líka að því að sólin fer aftur að skína. :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli