föstudagur, 27. ágúst 2004

Ég er pirruð í dag. Sem er frekar óviðeigandi þar sem vikan er búin að vera býsna góð. Á þriðjudagskvöldið hafði Palli t.d. samband og reyndist vera á landinu í nokkra daga. Við mæltum okkur mót niðri í bæ og kjöftuðum úr okkur allt vit langt fram á nótt. Alltaf óendanlega gaman að hitta frábært fólk eins og Palla.

Í gærkvöld fór ég svo á Happy End hjá Sumaróperunni. Þótt fólkið væri afar misvel þjálfaðir leikarar voru fýlulegu sláturdómarnir sem sýningin fékk alls ekki verðskuldaðir. Hún var stórskemmtileg, sérstaklega eftir hlé.

En í dag er ég pirruð. M.a. er ég í geðvonskukasti yfir fólki sem sér ekki skóginn fyrir trjám. (Syrpan sem ég tók í kommentakerfinu við þessa færslu hjá Nönnu var afleiðing af almennum pirringi; það var ekki efni færslunnar sem orsakaði hann.) En ég læt það vera að útlista orsakirnar hér. Og það er líka sitthvað fleira að pirra mig en ég ætla ekkert að fjölyrða um það heldur.

Reyni frekar að einbeita mér að því að hlakka til skemmtilegu hlutanna sem framundan eru. Pollýanna blífur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli