föstudagur, 12. mars 2004

Eitthvað við Kaupmannahöfn laðar fram í mér löngun til að kaupa eldhúsdót! Undarlegt - og þó. Kannski er þetta ekki svo skrýtið. Það er til svo óheyrilega mikið af flottum hlutum í þessari borg sem æpa hátt og skýrt: Kauptu mig, kauptu mig núna ... Ég ætlaði t.d. ekki að kaupa neitt í Illums bolighus (bara skoða) en féll gjörsamlega fyrir glerkrukku með bleiku plastloki sem lítill skrýtinn kall hangir neðan úr (hér er mynd). Og það er engin leið að komast út úr Bodum-búðinni án þess að kaupa eitthvað, þannig að núna á ég nýja fína pressukönnu (mig vantaði svoleiðis í alvörunni, glerið í gömlu pressukönnunni minni var brotið og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafði mér ekki tekist að fá nýtt gler sem passaði). Og svo rakst ég á hrikalega skemmtilega litla búð yfir í Kristjánshöfn sem heitir Inblik (ekki Ind- heldur In- (þetta er ekki stafsetningarvilla hjá mér)) og þar "varð" ég að kaupa mokkakönnu - sem er samt eiginlega ekki kanna (skilgreiningarvandi sem tengist könnum er að verða þema vikunnar) - því það er ekki hefðbundinn könnu-efripartur á henni, heldur pallur fyrir tvo bolla sem kaffið rennur beint í. "Kannan" mín líkist græjunni á þessari mynd nema á minni er neðriparturinn rauður, pípurnar svartar og bollarnir líta út eins og beygluð plastglös! Og svo er það auðvitað múmínbollinn sem áður var sagt frá (held að ég sé búin að ákveða að kalla þetta bolla).

(Er ég farin að nota sviga og innskot óhóflega?)

Mér finnst gaman að eiga skrýtna hluti! Þýðir það að ég sé skrýtin? Hah! það er gaman að vera skrýtin.

Og það er ekki allt upp talið: t.d. á ég líka nýja kápu - rauða sumarkápu. Gaman gaman!

Sko, söfnin í Kaupmannahöfn eru eiginlega öll lokuð á mánudögum. Þannig að þá neyðist maður beinlínis til að fara í búðir. Er það ekki annars?

Því miður komst ég ekkert í skóbúðirnar sem ég var búin að horfa svo mikið í gluggana á - eða kannski ætti ég að segja sem betur fer (með tilliti til heilsuverndar vísakortsins). Það eru hrikalega margar flottar skóbúðir í Kaupmannahöfn. En þegar ég var á leiðinni út í flugvél á Kastrup gekk ég framhjá Ecco-skóbúðinni þar og náði að kaupa ógurlega fína rauða skó á mettíma. Mmmmm.......

Trúlega þarf ekki mikla ályktunarhæfni til að sjá af þessari bloggfærslu að rauður er uppáhaldsliturinn minn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli