mánudagur, 3. janúar 2005

Gleðilegt ár. Ástandið í heiminum er ömurlegt, líf fólks í kringum mig var misgott á árinu (frábært hjá sumum, verra hjá öðrum) en ég ætla ekki að taka upp á þeirri nýbreytni að blanda því mikið inn í þetta blessað blogg. Það hefur verið egósentrískt röfl og kjaftæði frá upphafi og verður áfram. (Mér finnst engin ástæða til að taka fram að það sé ekki tæmandi lýsing á hugsunum mínum.)

Ég er ekki mikið fyrir áramótauppgjör - og finnst áramótaheit glatað fyrirbæri - en samt hefur maður tilhneigingu til að líta aðeins um öxl á þessum tíma þótt ég sé reyndar með gúbbífiskaminni dauðans. Kannski er það ástæðan fyrir því að mér finnst ekkert sérlega margt hafa gerst á árinu. Held að það sé þó ekki eingöngu misminni að mér finnist ég hafa siglt tiltölulega lygnan sjó. Samt gerðist auðvitað margt nýtt - t.d. var ég í sömu vinnunni allt árið og ég átti líka sumarfrí. Hvort tveggja var glæný lífsreynsla og nokkuð góð, enda er ég mjög ánægð í vinnunni. Samt frekar fyndið að helstu breytingarnar skuli vera breytingaleysi. Kannski óhóflegt fullorðinseinkenni en ekki endilega slæmt.

Auðvitað var margt annað nýtt án þess að vera status quo. Ég fór t.d. miklu oftar til útlanda en nokkru sinni áður, vísakortinu til lítils hagnaðar en sjálfri mér til gríðarlegs fagnaðar (nema þegar vísareikningarnir komu). Og þetta æsti bara upp í mér enn frekari ferðalöngun. Meðal þess sem mig langar að gera á þessu ári er því augljóslega að ferðast meira. Á árinu byrjaði ég líka í magadansi í Kramhúsinu mér til bæði gagns og gamans enda ætla ég að sjálfsögðu að halda áfram. Mig langar líka að læra ýmsar fleiri gerðir af dansi. Af hverju eru svona fáir klukkutímar í sólarhringunum? Svo langar mig að sjálfsögðu alltaf að lesa meira (enda er það skemmtilegast af öllu). Og hitta vini mína oftar. Það stendur svo sem ekki upp á mig eina, það hafa allir eitthvað svo mikið að gera (þar á meðal ég sjálf). Er eitthvert skeið núna þar sem allir eru að drukkna í vinnu og öðrum verkefnum?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli