sunnudagur, 23. janúar 2005

Annaðhvort var sunnudagskrossgáta Moggans óvenju létt að þessu sinni eða ég í sérlega góðu stuði því ég kláraði hana á minna en þremur korterum; var meira að segja búin með öll orðin nema tvö innan hálftíma. Þetta tók eiginlega fullfljótt af - miklu skemmtilegra ef maður þarf virkilega að brjóta heilann.

Til huggunar því fólki sem hefur haft áhyggjur af því að ég myndi loka mig inni í krossgátueinangrun um helgina er rétt að upplýsa að mannleg samskipti hafa verið allnokkur það sem af er. Fyrst kom Þorgerður frænka mín með frábæra afmælisgjöf: gamla litaða ljósmynd úr fallegustu sveit í heimi þar sem Sellandafjall og Bláfjall sjást í allri sinni dýrð. Og svo dreif ég mig út úr húsi og naut góðs af kryddbrauðinu hennar Steinunnar. Afar notaleg stund.

Kannski ég haldi áfram með hjartagátubunkann (leysti tvær í gærkvöld mér til mikillar gleði) fyrst sunnudagskrossgátan tók styttri tíma en áætlað var. Eða lesi eitthvað skemmtilegt. Kannski ég kasti upp krónu ... eða fimmtíukalli - ég á víst ekki krónu. Ef krabbinn kemur upp er það krossgátan, landvættirnar (þoli ekki þegar fólk veit ekki að þetta er kvenkynsorð) leiða af sér lestur. Einn, tveir og ... krabbinn var það. Byrja þá allavega á hjartagátunni. Les kannski eitthvað skemmtilegt á eftir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli