mánudagur, 23. febrúar 2004

Hah! Ég bakaði vatnsdeigsbollur í gærkvöld. Og byrjaði meira að segja löngu fyrir miðnætti, þ.e. um tíuleytið í gærkvöld. Reyndar misheppnuðust þær hálfvegis -- en þær eru samt ágætar á bragðið. Það skiptir mestu.

En nú er tekinn við annars konar vandræðagangur. Sko: Bróðir minn er búinn að búa hjá mér frá áramótum. Við skiptumst á að elda; sjáum um viku í senn. Og núna er mín vika að elda. Og ég ætlaði að halda þjóðlegar hefðir í heiðri: elda fiskbollur í kvöld og saltkjöt & baunir annað kvöld. En ég hugsaði ekki út í að svoleiðis matur yrði að sjálfsögðu líka í mötuneytinu. Það flækir málin svolítið því mig langar ekki að borða það sama tvisvar sama daginn tvo daga í röð.

Ég gæti auðvitað fengið mér salat núna og eldað fiskbollur í kvöld. En ég er svöng. Mig langar í almennilegan mat. Kannski ég fái mér fiskbollurnar -- og eldi svo bara öðruvísi fiskbollur í kvöld. Kannski með hellingi af rifnum gulrótum og einhverju undarlegu kryddi. Svo fæ ég mér bara salat í hádeginu á morgun og elda svo saltkjöt & baunir. Auðvitað geri ég þetta svona. Málið leyst. Af hverju vesenast maður stundum svona mikið yfir einföldum hlutum?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli