mánudagur, 21. júní 2004

Að marggefnu tilefni skal eftirfarandi tekið fram:
Ég er ekki hætt að blogga.
Það er bara hefð fyrir því að ég leggist í bloggdá öðru hverju.
Og þar sem síðasta vika var sérstaklega tileinkuð Menntaskólanum á Akureyri og þar með hefð á hefð ofan er hefðbundið bloggfall sérlega viðeigandi um þessar mundir.

Mikið hrikalega var annars gaman á stúdentsafmælinu. Kannski tekst mér að blogga um það fljótlega. En bara kannski. Ég á eiginlega eftir að blogga um svo margt skemmtilegt, t.d. Lundúnaferðina, að ég verð næstum andvana máttvana magnvana við tilhugsunina. Og orðlaus. Mér fallast semsagt hendur. Kannski fer þetta svo að ég blogga alls ekki neitt. Held bara áfram að liggja uppi í sófa þegar ég á lausa stund og horfa á Bráðavaktina. Frænka mín á nefnilega fyrstu seríuna komplett á DVD og var svo væn að lána mér hana - með þeim afleiðingum að ekkert varð úr dugnaðinum sem var á dagskrá um helgina. Fyrsta rólega helgin heima í lengri tíma - ég hef varla komið heim til mín nema yfir blánóttina svolítið lengi - og meiningin var að sýna djörfung og dug og taka jafnvel svolítið til. Byrjaði á fataskápnum á laugardaginn, reif helminginn af fötunum út úr honum og sorteraði í bunka. Síðan hefur ekkert gerst. Og ég er búin að sofa á sófanum í stofunni tvær síðustu nætur því ég nennti ekki að færa fatabunkana af rúminu. Bráðum drepst ég úr leti. Eða kafna í drasli. Það verður spennandi að sjá hvort gerist á undan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli