þriðjudagur, 10. febrúar 2004

Þreyta er hverfult hugtak. Slenið sem hrjáði mig á föstudaginn hvarf eins og dögg fyrir sólu undir kvöldið (hmmm, sennilega öfugsnúið að blanda sólinni í þetta), og í vinnupartíinu (sem stóð langt fram á nótt) var ég auðvitað með þeim síðustu út. Hugmyndir um að ég færi ábyggilega snemma heim sökum þreytu reyndust að sjálfsögðu ranghugmyndir. Var bara þeim mun uppgefnari á laugardaginn í staðinn. En það gerði nú ekkert til.

Gerði ekkert um helgina – þrátt fyrir nokkur verkefni sem biðu – nema að lesa þrjár Rankin/Rebus-bækur. Hægt að eyða tímanum í ýmislegt verra en það. Já, og svo fór ég í bíó – á Leyndardóm gula herbergisins sem er á frönsku kvikmyndahátíðinni. Gaman að ýmsu í henni, en fimmaurabrandararnir voru stundum óþarflega langir. Eiginlega voru heldur mörg atriði einn langur fimmaurabrandari. Gat orðið pínu þreytandi.

Annars er ég búin að uppgötva að það sé misskilningur að sólarhringinn vanti nokkra klukkutíma. Ég er allavega búin að skipta um skoðun. Núna langar mig meira í aukadag í vikuna. Aukafrídag. Þegar ég á frí um helgar er ég oft búin að vera á laugardegi eftir langa og stranga vinnuviku (ekki síst eftir viku eins og þá síðustu sem tók töluvert á en var líka stórskemmtileg). Á hefðbundnum sunnudegi er ég svo aðeins að hjarna við og á góðri leið með að fara hugsanlega að koma einhverju í verk innan tíðar. En svo verður aldrei af neinu því maður þarf að mæta aftur í vinnuna á mánudegi.

Möguleg lausn á þessu gæti verið að gera mánudag að frídegi en mér fyndist það ekkert sérlega góð hugmynd. Mig langar ekkert að vinna minna en ég geri. Mig langar bara í meira frí. Nýjan frídag á eftir sunnudegi en á undan mánudegi. Hann gæti heitið aukadagur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli