föstudagur, 20. febrúar 2004

Endanlega orðin galin? Það hélt ég sem snöggvast í gær. Fannst ískyggilegt að sjónin sviki mig hastarlega annan daginn í röð. Ég gekk nefnilega upp Bankastrætið eftir vinnu og fannst ég sjá risatúlípana. Varð hrædd um að næst breyttist rykið undir rúminu í litla græna kalla og ég færi að heyra raddir sem segðu mér að teikna lítil hjörtu á öll þingskjölin eða eitthvað þaðan af verra. En þegar betur var að gáð reyndist þetta ekki skynvilla. Það var í alvörunni búið að breyta ljósastaurunum í túlípana. Hrikalega flott.

Það er víst að koma helgi einu sinni enn og ég er ekki búin að blogga um þá síðustu eins og ég ætlaði mér. Kannski kemst það í verk í dag.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli