miðvikudagur, 18. febrúar 2004

Stundum mætti halda að ég væri ólæs. (Sem væri frekar óheppilegt í mínu starfi.) Rétt í þessu leit ég á tölvuskjáinn þar sem lagasafnið blasti við (í númeraröð) – og varð svolítið hverft við því ég sá þarna glænýtt lagaheiti. Þegar ég neri augun og kannaði málið betur kom auðvitað í ljós að lög um ráðstöfun dauðra eru alls ekki til! Hins vegar eru til lög um ákvörðun dauða (nr. 15/1991) og í næstu línu á eftir eru lög um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum (nr. 13/1991).

Ég er reyndar nokkuð ánægð með þetta nýja lagaheiti. Hvernig væri að breyta um heiti á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu? Lög um ráðstöfun dauðra er mun þjálla. Það væri hægt að nota tækifærið og bæta við nýju ákvæði þar sem ítrekað væri að hafnir teljist ekki lögmætir grafreitir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli