fimmtudagur, 24. júní 2004

Lenda fleiri en ég í því að fá stundum sama furðulega kommentið oft og mörgum sinnum á stuttum tíma - úr ýmsum áttum? Að fólk í kringum mann fái sömu "fix idé" á sama tíma?

Á tveimur dögum í þessari viku er ég t.d. þrisvar búin að fá kommentið: "Mikið ertu dugleg að gera eitthvað skemmtilegt ein." (Og reyndar ekki í fyrsta skipti.) Ótrúlega margir virðast hissa á því að ég ferðist stundum/oft ein, fari stundum/oft í bíó ein o.s.frv. - án þess að farast úr leiðindum og án þess að mér finnist það tiltökumál.

Skil þetta ekki. Fyndist fólki eðlilegt að ég sæti kyrr, boraði í nefið á mér og biði eftir því að annað fólk kæmi og "bjargaði" mér? Mér finnst miklu heilbrigðara að vera einfær um að gera líf mitt skemmtilegt. Sko, ég á marga frábæra vini en þeir eru ekkert alltaf tiltækir. Og stundum finnst mér hreinlega þægilegt og jafnvel gaman að vera ein. Og mér finnst það ekkert skrýtið. Og fatta ekki hversu mörgum finnst þetta merkilegt. Telst það virkilega eðlileg hegðun að bíða eftir því að aðrir "bjargi" manni frá leiðindum? Þá er ég mjög fegin að hafa aldrei verið eðlileg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli