laugardagur, 21. febrúar 2004

Lhasa er frábær. Hef hlustað mikið á gamla diskinn hennar, La Llorona, sem er algjört æði; tók hann hvað eftir annað á bókasafninu í fyrra – en kom því loksins í verk að kaupa hann um daginn og nýja diskinn líka, The Living Road. Hann er fínn, samt kannski ekki alveg eins góður. Þar syngur hún ýmist á spænsku, frönsku eða ensku – og enn sem komið er finnst mér síst að hlusta á hana á ensku. Svipað og þegar Edith Piaf syngur á ensku; það passar ekki. Franskan hjá Piaf er svo órjúfanlegur hluti af tónlistinni, og ég held að svipað megi segja um Lhösu (verður ekki að beygja nafnið svona?); spænskan fellur betur að tónlistinni hennar (og franskan líka).

Held að uppáhaldslagið mitt með Lhösu sé fyrsta lagið á gamla disknum, De cara a la pared. Rigningarhljóðið í því er algjörlega ómótstæðilegt. Þegar veðrið er andstyggilegt, slagviðri og viðbjóður, er fátt betra en að spila þetta lag og ímynda sér að rigningin sé hitaskúr og maður gangi um steinlagðar borgargötur að kvöldlagi í þunnum sumarkjól. (Kannski ekki alveg í samræmi við grátinn og kveinstafina sem ég held að sé lýst í textanum, en það er annað mál.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli