fimmtudagur, 5. febrúar 2004

Mikið getur tíminn verið afstæður og liðið undarlega. Stefán og Steinunn voru svo indæl að bjóða mér í mat í gærkvöld og við kjöftuðum síðan út í eitt fram eftir kvöldi, ja og eiginlega svolítið lengur. Tíminn leið nefnilega eftir svo undarlegum brautum. Ég leit þrisvar á klukkuna. Fyrst reyndist hún vera rúmlega tíu, og ég var ógurlega fegin að hún skyldi ekki vera orðin meira. Næst var komið miðnætti, og þá hugsaði ég: „Jæja, það er nú best að fara að koma sér heim.“ Síðan leið bara smástund í viðbót – að mér fannst. Þannig að ég skil bara ekkert í því hvernig klukkan fór að því að vera orðin tvö. Allt í einu. Svona getur tíminn gufað upp þegar maður er með skemmtilegu fólki. (Bestu þakkir fyrir mig.)

Á nýliðnu bloggauðnartímabili hefur annars ótalmargt skemmtilegt gerst. Það voru auðvitað jól – sem voru ósköp indæl og áramótin sömuleiðis. Best af öllu var samt afmælið mitt um daginn. Ég er búin að vera í væmniskasti síðan (virðist orðið fastur liður á þessum árstíma) yfir því hvað mér finnst vinir mínir frábærir og æðislegir og ég veit ekki hvað og hvað. Það er svo sem ekki slæmt.

Já, og svo eru stórfréttir: Fastur liður á þessu bloggi hafa verið kvartanir og kveinstafir yfir skorti á bókahillum – en nú verður hlé á slíku nöldri. Ég keypti mér nefnilega bókahillur um daginn! Alveg helling! Þrjá Billy-bókaskápa með upphækkun. Allgott. (Í fornri merkingu forliðarins all-.)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli