mánudagur, 28. júní 2004

Helsta afrek helgarinnar: Að gera íbúðina aftur að mannabústað. Reyndar var það að hluta til gert með hókuspókusaðferðinni - þ.e. draslinu sópað úr augsýn: undir dúkað borð, inn í skáp ... ýta, troða ... (Svo kemur skriðan á móti manni seinna.) Þessi aðferð var einkum notuð þegar allnokkuð var liðið á laugardaginn og farið að styttast verulega í að Kata, Steinunn og Stefán kæmu í mat.

Ég náði samt að gera sumt í alvörunni, fasti liðurinn "endurröðun í bókahillur" tókst t.d. ágætlega. Fataskápurinn er hins vegar ennþá í klessu og eiginlega verri en nokkru sinni fyrr eftir að jólaseríu, töskum og ónýtum skóm með meiru var hrúgað inn í hann á síðustu stundu.

En það er aukaatriði. Aðalatriðið er hvað það er alltaf óheyrilega gaman að fá skemmtilegt fólk í heimsókn, ekki síst fólk sem ræðir m.a. við mann um múmínálfana, fræðir mann um undarlegheit hinnar stórfurðulegu hreyfingar Ananda Marga (og ofbeldishneigða armsins innan hennar) svo fátt eitt sé nefnt - auk þess að eipa með manni yfir vali "kosningasjónvarpsins" á myndefni og tregðu til að umbreyta kosningatölunum í grafík.

Þótt KA-heimilið sé nokkuð laglegt vil ég frekar súlurit.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli