þriðjudagur, 13. september 2005

Ég á enn eftir að lesa Stríðsmenn Salamis en er orðin verulega spennt, a.m.k. var höfundurinn (Javier Cercas) óheyrilega skemmtilegur í hádegisspjallinu í Norræna húsinu áðan og það var líka verulega gaman að hlusta á hann lesa upp í fyrrakvöld. Uppáhald nr. 2 af þeim sem ég er búin að heyra í. (Margaret Atwood er nr. 1.) James Meek vakti hins vegar engan sérstakan áhuga hjá mér.

Upplesturinn í gærkvöld var ágætur, Finninn (Kari Hotakainen) var mjög fyndinn og ég hlakka til að lesa bókina hans sem var verið að þýða (Skotgrafarveg), fuglabókin eftir Graeme Gibson virkar alveg áhugaverð, Eric-Emanuel Schmitt var afskaplega krúttlegur og gaman að hlusta á hann lesa, en Annie Proulx ætlaði hins vegar að drepa mig úr leiðindum. Ég hafði ekkert gaman af Skipafréttum þegar ég las þær á sínum tíma en vonaðist til að það breyttist við að heyra lesið úr þeim; stundum lifna bækur við í upplestri. Þær vonir rættust ekki. Mér fannst bókin jafn leiðinleg eftir sem áður og hún las hroooooðalega langan kafla.

Nú er ég að reyna að ákveða hvort ég á að drífa mig af stað að hlusta á spjallið við Þjóðverjana klukkan þrjú. Byrjaði á Helden wie wir eftir Thomas Brussig seint í gærkvöld en er bara búin með einn kafla, sem var svosem ágætur, en smásögurnar sem ég las um daginn eftir Karen Duve voru óbærilega leiðinlegar. Spurning hvort þetta verður áhugaverðara ef ég heyri spjallað við hana? Eða ekki?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli