fimmtudagur, 15. september 2005

Er heilbrigt að geta ekki séð texta í friði? Þá á ég ekki við þörf mína fyrir að krota allt út með rauðu (sem er vissulega knýjandi), heldur hreinlega að geta ekki haft texta nálægt mér án þess að lesa hann.

Einu sinni sá ég danska mynd í bíó í Frakklandi (ekki talsetta heldur textaða). Ég kann ekki frönsku. Samt las ég textann.

Á listasöfnum þarf ég stundum að beita mig hörðu til að horfa á verkin sjálf og lesa ekki bara nafnið á þeim.

Ég er sem sagt illa haldin af einhvers konar textamaníu og hún kemur einnig fram í því að í upplestrunum á bókmenntahátíðinni - þar sem íslenskri þýðingu er varpað á tjald þegar erlendu höfundarnir lesa - er engin leið að ég geti sleppt því að lesa textann þótt stundum sé lesið á máli sem ég skil. Sumar þýðingarnar eru góðar. Aðrar ekki. Alls ekki.

Ég hef áður nefnt efasemdir um þýðinguna á Dauðanum og mörgæsinni eftir Andrej Kúrkov og pirringurinn jókst mjög á upplestrinum í gær. Setningar á borð við "okkur vantar hæfileikaríkan höfund minningargreina" eru ekki að gera sig. (Aftur á móti var mjög gaman að Kúrkov sjálfum og tónlistaratriðið í dagskrárlok var dásamlega súrrealískt.)

Þýðingin á Hanan al-Shaykh sýndist mér almennt ágæt - en það var frekar fyndið hvernig hræðsla við erlend orð birtist þarna á tvenns konar hátt. Í upplestrinum kom bæði fyrir tabbouleh og húmmus. Í þýðingunni varð þetta tabbouleh-salat og kjúklingabaunamauk! Í fyrra skiptið skáletur til að það sé örugglega nógu skýrt að þarna sé hættuleg útlenska á ferðinni og íslensku orði síðan hnýtt aftan við til að milda áhrifin. (Ég veit alveg að þessi meðferð á útlenskum orðum er ekki bundin við Ísland en mér finnst hún samt óþarfi.) Í seinna skiptið hefur greinilega þótt vissara að hafa nógu margsamsett orð sem enginn myndi nokkurn tíma láta sér um munn fara.

Þýðingin á Hornby í fyrrakvöld var ekki heldur góð, t.d. var hún marflöt og munurinn á málsniði persóna máðist gjörsamlega út, en svo voru líka furðulegar villur í henni. Í upplestrinum kom t.d. fyrir setningin "she didn't carry any weight" (eða eitthvað mjög svipað) sem í samhenginu sem hún stóð í þýddi frekar augljóslega 'hún var ekki þétt á velli' / 'hún var algjört strá' (eða eitthvað í þá veru). Í þýðingunni stóð hins vegar "hún hafði ekkert með sér til að þyngja sig" (skráð eftir minni og orðalagið er kannski ekki nákvæmt, en þetta var innihaldið). Frekar pínlegt. Villa af því tagi sem oft sést í bíóþýðingum sem eru bara unnar eftir handriti.

Þetta var dagskrárliðurinn 'prófarkalesari fer á bókmenntahátíð'. Lifið heil.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli