þriðjudagur, 6. september 2005

Mér hættir til að gera hlutina annaðhvort strax eða seint. Þetta kemur fram á undarlegasta hátt, t.d. í sambandi við lestur á bókum sem ég eignast. Oftast les ég bækurnar strax eða því sem næst, en ef það gerist ekki einhverra hluta vegna (t.d. þegar ég kaupi margar bækur í einu) líður oft óratími þangað til ég snerti þær. Þær fara einfaldlega í flokkinn "bækur sem ég ætla að lesa einhvern tíma við tækifæri", þ.e. seinna.

Þegar mig vantar eitthvað að lesa fer ég á bókasafnið eða út í bókabúð og kaupi nýja bók; það hvarflar ekki að mér að snerta ólesnu bækurnar sem ég á. En svo er átak öðru hverju til að grynnka á uppsafnaða bunkanum. Og þegar ég sá listann yfir erlenda höfunda sem eru að koma á bókmenntahátíðina var deginum ljósara að slíkt átak væri orðið verulega brýnt. Ég hef lesið næstum allt eftir tvö af höfundunum á hátíðinni (Hanne-Vibeke Holst og Nick Hornby), einstaka bók eftir fjóra höfunda í viðbót - og svo kom í ljós að ég hefði einhvern tíma keypt bækur eftir ískyggilega marga höfunda sem eru að koma á hátíðina án þess að hafa síðan lesið þær. Dró þessar bækur fram úr hillunum og bjó til bunka á borðinu. Þær reyndust vera níu. NÍU!

Þannig að nú er átak í gangi. Verst hvað það byrjar illa. Mér sýnist reyndar að Dauðinn og mörgæsin e. Andrej Kúrkov sé skemmtileg en ég varð að leggja hana til hliðar því ég rakst á alltof margar pirrandi klúðurslegar setningar í þýðingunni (sem geta ekki hafa verið viljandi klúðurslegar, svoleiðis virkar öðruvísi). Stefni samt að því að opna bókina aftur og lesa hratt. Nógu hratt til að ná plottinu en missa vonandi af klúðrinu.

Ég er rúmlega hálfnuð með What I Loved e. Siri Hustvedt (keypt fyrir tæpum tveimur árum) en hún er ekki enn farin að vekja nokkurn einasta áhuga minn. Er að reyna að ákveða hvort ég eigi að þræla mér gegnum afganginn eða hætta bara við. (En ég gefst næstum aldrei upp á bókum, held oftast í vonina til síðustu blaðsíðu. Stundum er ég bjartsýn.)

Svo er ég búin að lesa þrjár smásögur í Keine Ahnung e. Karen Duve (keypt fyrir rúmum fimm árum. Fimm!). Þær voru allar hundleiðinlegar.

Þetta lofar ekki nógu góðu. Bind samt enn heilmiklar vonir við nokkrar bækur í bunkanum. Jákvæð og bjartsýn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli