laugardagur, 20. júlí 2002

Þótt dagurinn í dag hafi ekki verið með besta móti er ekki þar með sagt að helgin öll sé hræðileg því gærkvöldið var verulega skemmtilegt. Þá hitti ég þrjá vini og fyrrverandi bekkjarfélaga, Jónu Finndísi (sem á tvær heimasíður, hér og hér), Palla sem á mínímalískustu heimasíðu í heimi) og Hjöddu (sem hefur látið heimasíðugerð vera enn sem komið er). Því miður er ekkert þeirra farið að blogga en vonandi stendur það til bóta. Svansý átti líka að vera á svæðinu en var löglega forfölluð, ætlaði að vera farin norður í jarðarför, en síðan komst hún ekki einu sinni í jarðarförina þar sem henni tókst að veikjast rækilega, einu sinni sem oftar. Ekki gott.

Við hittumst á Kaffibrennslunni þar sem við könnuðum rækilega hina mismunandi stóla staðarins og hvar væri best að sitja. Niðurstaðan er ekki ljós; trúlega er frekari rannsókna þörf. Fyrst færðum við tvö lítil borð saman en fannst við vera óþarflega mikið úti í myrku horni þannig að við ákváðum að athuga hvort við gætum ekki setið öll við eitt lítið borð sem var aðeins meira miðsvæðis. Það kom ekki nógu vel út þannig að þegar stærra borð losnaði fluttum við okkur þangað. Það eina sem kom í veg fyrir að tilfæringarnar héldu áfram var sú brjálæðislega hugmynd að kanna næst tívolí dauðans á hafnarbakkanum. Þar reyndist varla vera sála en við ákváðum samt að prófa eitthvað af tækjunum. Þegar við ætluðum að kaupa miða komumst við hins vegar að því að það var ekki hægt að borga með kortum, þannig að við þurftum að ganga yfir í Austurstræti til að komast í hraðbanka og rölta síðan aftur til baka.

Þá tókst okkur loksins að kaupa miða og þrátt fyrir mótmæli mín var haldið í átt að tæki sem maður fer í hvolf í. Jóna Finndís og Hjödda voru rétt á undan okkur Palla en þegar þær voru komnar í tækið var það orðið fullt þannig að við Palli neyddumst til að bíða eftir næstu ferð. Við vorum næstum búin að hætta við og hefðum betur gert það því þegar við vorum loksins sest þurftum við að bíða ennþá lengur því starfsmennirnir vildu greinilega fylla tækið. Og þar sem næstum enginn var í tívolíinu (eins og áður hefur komið fram) tók það laaaangan tíma. Ég var mjög fegin þegar þessu öllu lauk þótt það hafi reyndar verið svolítið fyndið að sjá Hafnarhúsið og nánasta umhverfi á hvolfi.

Næst var haldið að brjálaða frosknum. Þar lauk einni ferðinni skömmu eftir að við komum og við tókum eftir því að þarna var ekki lögð áhersla á að fylla tækið eins og í hinu brjálæðinu. Þannig að við rukum strax til og settumst. Svo biðum við. Og biðum. Og biðum ennþá lengur. Og biðum. Við vorum næstum sofnuð þegar við komum loksins af stað, en þá var engin hætta á að við gætum lognast út af, nema það hefði liðið yfir okkur af öllum rykkjunum. Eða við dáið úr súrefnisskorti, alla vega ég, því ég var yst og vegna miðflóttaaflsins (sem við lærðum væntanlega um í eðlisfræði endur fyrir löngu) þrýstust Jóna Finndís og Palli rækilega upp að mér (því miður hafði Hjödda þurft að yfirgefa okkur þegar hér var komið sögu þar sem bróðir kærastans hennar var að koma til landsins í heimsókn).

En við lifðum þetta af þrátt fyrir allt. Þegar öllu þessu var lokið var samt orðið verulega nauðsynlegt að fá sér eitthvað hjartastyrkjandi og í þeim tilgangi var haldið á Apótekið. Þar sátum við bara við eitt borð, en kannski hefðum við haldið í heiðri þá hefð okkar (hjá MA-ingum er nóg að gera eitthvað einu sinni til að það sé orðið hefð) að flytja okkur reglulega til ef starfsfólkið hefði ekki farið að stafla stólunum skelfilega snemma.

Meðal þess sem rætt var þetta kvöld var Inter-X alheimslistinn sem er orðið nokkuð brýnt að uppfæra. Ef einhverjir af félögum okkar úr X-inu lesa þetta mega þeir gjarnan senda mér póst og láta vita hvar þeir halda sig um þessar mundir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli