laugardagur, 20. júlí 2002

Ég er með hausverk! Ekki gaman. Eins gott að ég sé ekki að verða veik eins og sumir. Í bili ætla ég alla vega frekar að kenna óæskilegu hljóðáreiti sem hefur dembst yfir mig í dag um þetta leiðindaástand. Það byrjaði þegar ég fór á geisladiskaútsölu í Brautarholtinu (þar sem Japis var). Þegar ég kom inn var reyndar verið að spila prýðilegan djass en áður en leið á löngu var settur panflautudiskur í geislaspilarann. Fyrsta lagið var „I will always love you“ sem var nógu leiðinlegt með Whitney Houston en ennþá verra í panflautuútsetningunni, og síðan rak hver smekkleysan aðra.

Næsti viðkomustaður var Súfistinn. Þar var sömuleiðis verið að spila skikkanlega tónlist þegar ég kom en ekki leið á löngu áður en það breyttist. Þá kom að íslenskum lögum í útsetningum sem kallast kannski „þægilegar“ en er í þessu tilviki skrauthvörf fyrir „óþolandi“. Eini munurinn á þessu og panflautuskelfingunni var að hljóðfærin voru önnur. Auk þess var vægast sagt óviðeigandi að hlusta á „Sofðu unga ástin mín“ (sem sagt vögguvísu) svona síðdegis, þótt það væri reyndar ekkert í samanburði við „Nú er frost á Fróni“ sem er álíka fáránlegt stílbrot um hásumar og Heims um ból væri sautjánda júní.

Jæja, ég flúði Súfistann á endanum en þar með var árásunum á eyrun ekki lokið. Ég þurfti nefnilega að bíða í rúmar tíu mínútur eftir strætó niðri á Lækjartorgi og þar með að hlusta á orðin „velkomin í passamyndasjálfsalann“ endurtekin hérumbil tvö þúsund sinnum.

Er furða að ég sé með hausverk?

Best að athuga hvort þurra sérríið mitt (Tio Pepe, namm) og Benny Goodman diskurinn sem ég keypti í dag vega ekki upp á móti öllum þessum hörmungum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli