þriðjudagur, 23. júlí 2002

Kötturinn er augljóslega mikill áhugamaður um norðlensku. segir hann sér hafa borist þau tíðindi eftir „áreiðanlegum leiðum“ að það sem hann kýs að kalla „doggy bag“ upp á útlensku kallist „hvuttasekkur“ eða „seppasekkur“ fyrir norðan.

Sá Norðlendingur sem hér lemur lyklaborð hefur takmarkaða trú á því að þær heimildir kattarins um norðlensku sem hann kýs að líta á sem áreiðanlegar séu það í raun og veru. Skemmst er að minnast þrátekinna staðhæfinga kattarins um að Norðlendingar tali víst um „kók í bauk“, en fólkið sem hefur talið honum trú um það hefur augljóslega ekki fylkt sér undir merki sannleikans.

Hvutta- og seppasekkur eru orð sem hafa aldrei borist umsjónarmanni þessa málfarshorns til eyrna fyrr en nú, hvorki norðan heiða né annars staðar. Heimildarmenn kattarins um norðlenskt mál virðast því í þessu tilviki sem hinu fyrra ekki eins áreiðanlegir og æskilegt væri. Það breytir þó ekki þeirri staðreynt að þetta virðast vera ágætis orð sem fullkomlega óhætt væri að láta breiðast út, jafnt á Norðurlandi sem í öðrum landshlutum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli