þriðjudagur, 16. júlí 2002

Fór inn á Vísi og sá fréttina um Ármannshelli sem skýrði ýmislegt í véfréttarbloggi Ármanns. Enn er þó óljóst af hverju Ármann skrifaði „þeir hafa fundið“, án þess að það fylgi sögunni hverjir þessir „þeir“ eru. Það sem meira er; í fréttinni kemur bara einn maður við sögu, þannig að það hlyti að vera eðlilegra að segja t.d. „einhver hefur fundið...“ Eðlilegast væri samt „Ármannshellir hefur fundist“ eða „Ármannshellir er fundinn“.
Það er reyndar orðið ótrúlega algengt að sagt sé „þeir“ þegar gerandinn er óskilgreindur eða óljós, í samhengi þar sem oftast væri langeðlilegast að nota þolmynd. Hluti skýringarinnar er væntanlega áhrif frá hinu alræmda tungumáli, ensku, þar sem iðulega er sagt „they say ...“ í merkingunni „það er sagt að ...“, „they found something“ í merkingunni „eitthvað fannst“. En they á ensku getur ýmist merkt þeir, þær eða þau á íslensku — akkuru er nær undantekningarlaust sagt þeir? Og akkuru er það algengt að t.d. í blönduðum hópi kvenna og karla á leið eitthvað segi karlarnir ósjaldan „við erum að verða komnir“? Svo dæmi sé tekið. Eins og konurnar séu ekki til.

Þótt mér finnist áhyggjur af „karllægu málfari“ ósjaldan ganga út í öfgar (eins og þegar fólk agnúast út í það að maður skuli bæði eiga við karla og konur, sbr. eldri umræður), er þetta eitthvað sem mér finnst veruleg ástæða til að huga að.

Þar með lýkur femínískum málfarspistli dagsins að sinni. Ég þakka þeim sem hlýddu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli