þriðjudagur, 22. apríl 2003

Stundum er ég óstundvís, sem er ekki nógu gott. Reyndar er ég yfirleitt ákaflega stundvís þegar ég á að mæta á fundi og ýmislegt þess háttar – líka þegar ég þarf nauðsynlega að vera komin í vinnu á ákveðnum tíma – en síðan í menntaskóla hefur gjörvöll skólaganga mín mjög einkennst af skorti á stundvísi, einkum fyrst á morgnana. Það væri þó auðveldara að lifa með þessu vandamáli ef ég væri óstundvís á sama veg og Una vinkona mín núna áðan. Við höfðum ákveðið að fara saman út að ganga og mæltum okkur mót kl. korter yfir átta. Eftir að við höfðum ákveðið þetta hélt ég áfram að vinna um stund, en ætlaði svo að fara að fá mér eitthvað að borða. Þá hringdi síminn. Í símanum var Una. Samtalið var svohljóðandi:
Una: „Ég er komin á staðinn ...“
Ég: „Ó ...“
Una: „Já ...“
Ég: „En ætluðum við ekki að hittast korter yfir átta?“
Una: „Jú, er klukkan það ekki?“
Ég: „Ja, mín er korter yfir sjö.“
Una: „Ó ...“

Una virðist vera á sumartíma. Kannski ég ætti að reyna að taka mér hana til fyrirmyndar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli