þriðjudagur, 26. apríl 2005

Og ein bíóferð í viðbót:

Mótorhjóladagbækurnar (Diarios de motocicleta): uppáhaldsmyndin mín af þeim sem ég er búin að sjá á hátíðinni. Afar ljúf en felur jafnframt í sér mörg umhugsunarefni. Sjaldgæft að þetta tvennt fari saman, hvað þá svona vel. Sem betur fer er aldrei barið í málmgjöll til að segja fólki hvenær það á að hugsa, allt er þetta frekar lágstemmt, maður er aldrei mataður með teskeið á útskýringum og túlkunum og þeim troðið ofan í kokið. Það bjargar t.d. sundinu yfir ána sem hefði getað verið skelfilega banalt tákn en var bara frekar krúttlegt.

Gaman hvernig myndinni tekst að vera margt í einu: sæt og notaleg mynd um skemmtilega vini á ferðalagi, saga um hversu margt það er sem mótar fólk o.fl. Svo er fegurð aðalleikarans auðvitað ótvíræður kostur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli