föstudagur, 3. júní 2005

Þórdís er nýbúin að blogga um hörmungar Kringlunnar. Reynsluheimur minn er svipaður. Ég forðast verslunarmiðstöðvar líka eins og heitan eldinn en þurfti að fara í Kringluna í dag með hörmulegum afleiðingum. Ég var orðin málstola af ringlun á endanum. Var næstum búin að ljúga því að afgreiðslustúlku (eftir langt hik þar sem ég mundi ekki orðið) að ég hefði brotið handfang, en tókst á endanum (eftir áframhaldandi hik) að koma orðinu 'herðatré' út úr mér. Eini kosturinn við þessa leiðindaferð er að mér tókst á endanum að kaupa mér fallegt pils (eftir að hafa mátað skrilljón misskelfilegar flíkur). Það kostaði helling af peningum en mér er alveg sama.

Það hjálpaði ekki til að ég var vönkuð af hitamollu eftir að hafa reynt að vera á skrifstofunni minni mestallan daginn. Það annars ágæta herbergi telur sig vera í hitabeltinu þegar sólin skín.

Þar að auki (þetta var erfiður dagur) var ég geispandi eftir að hafa vaknað snemma til að mæta í útvarpsviðtal á Talstöðinni um bækur Snjólaugar Bragadóttur (endurtekið klukkan eitt í nótt ef einhver hefur áhuga). Ég hef lengi ætlað að skrifa um þær, safnaði að mér ýmsum gögnum fyrir þónokkru síðan og fékk mikinn fiðring í fingurna við að fletta þeim þegar ég var að undirbúa mig. Vonandi rekur þetta mig af stað að gera eitthvað í málinu.

En nú er ég komin norður á Akureyri og alveg að leggja af stað austur í Mývatnssveit. Hrólfur frændi minn fermist á morgun - það er meira hvað allir eru að verða gamlir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli