föstudagur, 14. október 2005

Á Mýrargötu er verið að selja gamlan lager frá Þorsteini Bergmann. Ég var glöð þegar ég frétti það, því þetta er ein af uppáhaldsbúðunum mínum, og enn glaðari eftir að ég er búin að fara þangað. Keypti ótrúlegustu hluti, suma hagnýta og aðra ekki svo hagnýta en þeim mun skemmtilegri. Ég var næstum búin að kaupa skelfilega baðvog, bara vegna þess hvað hún var ljót (gyllt umhverfis talnaskífuna og blár feldur undir fæturna) en tókst þó að hemja mig, enda fann ég nóg annað dásamlegt. Þetta er það merkilegasta:
  • form til að sjóða egg í svo það líti út eins og blóm,
  • nestistaska úr bláu plasti með nestisboxi, tveimur hitabrúsum, og lítilli flösku (sem er trúlega fyrir mjólk eða áfengi, eftir því hvort manni finnst betra út í kaffið),
  • tveggja hæða kökudiskur úr plasti með villtu blómamunstri (þó í dempuðum litum) - hann er mjög fallega ljótur,
  • ferðasnyrtiveski með skærum, naglaþjöl, spegli, plokkara, tannburstahylki, sápuhylki, naglabursta, fatabursta, skójárni og tveimur apparötum sem gætu bæði verið ætluð til að vesenast í naglaböndum, en annað gæti líka hæglega verið eyrnaskefill,
  • lítill grillofn, fullkominn fyrir ostabrauð (og jafnvel crème brûlée) - ætla rétt að vona að ég fái snúru í hann.
Það er víst opið á föstudögum og laugardögum. Ég ætla aftur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli