miðvikudagur, 17. maí 2006

Ég er alveg að missa tengslin við þetta blessað blogg. Verð að fara að taka mig á svo ég geti fagnað fjögurra ára bloggafmælinu (sem er skammt undan) almennilega. En eins og alltaf þegar ég hef "lent í" blogghléi veit ég ekkert hvernig ég á að byrja aftur. Mér finnst ekkert vera að frétta þótt ég hefði alveg haft ýmislegt að segja ef ég hefði bara hunskast til að halda mig að verki við bloggið.

En nú hillir undir meiri tíðindi því á morgun fer ég til New York í tíu daga og er hér um bil að farast af tilhlökkun. Mig hefur langað til þessarar borgar næstum síðan ég man eftir mér og trúi því varla að ég sé alveg að komast þangað. Keypti miðann fyrir mánuði og síðan hef ég legið í ferðahandbókum; Rough Guide á ég sjálf, samstarfskona mín lánaði mér Time Out bókina og svo hef ég dvalið langdvölum í Eymundsson til að lesa Lonely Planet o.fl., fyrir nú utan það að hanga á netinu. Annars er ég ekkert að skipuleggja mikið fyrirfram - mér finnst gott að vera búin að lesa mér vel til en láta það svo bara ráðast á hverjum degi hvað ég geri. En ef einhver sem les þetta þekkir borgina vel og vill koma með góðar ábendingar yrði það vel þegið.

Kannski verður hægt að fylgjast með ferðasögunni jafnóðum hérna á blogginu. Kannski.

Annars mæli ég með blogginu hennar Örnu frænku minnar sem íhugar að gerast eins manns sirkus.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli