þriðjudagur, 22. október 2002

Hvar er húfan mín, hvar er hempan mín ... ? Veit reyndar ekki hvað ég er að spyrja svona fráleitra spurninga þar sem ég á hvorki húfu né hempu. Hins vegar er greiðan mín týnd. :( Ekki ánægð með það. Ég er viss um að hún var á sínum stað í gær!

Nýtt blogg var hins vegar ekki á sínum stað á þessari síðu í gær frekar en aðra nýliðna daga, og ég sé að bloggari dauðans hefur ekki getað setið á sér að uppnefna síðuna mína upp á nýtt í samræmi við það. Ég veit svo sem að ég á ekkert annað skilið; Bjarni er meira að segja búinn að vera duglegri en ég að blogga upp á síðkastið, og þá er nú mikið sagt. Reyni samt afsökunina: Óheyrilega mikið að gera og vinnan sýgur úr mér alla orku. Geri ekki ráð fyrir að þetta verði tekið gilt, en það er samt satt!

Síðast þegar ég bloggaði var ég víst á leiðinni á skemmtikvöld Múrsins og búin að vera á leiðinni að fá hálsbólgu í nokkra daga, en hafði tekist að halda aftur af henni með hinum ágæta lífselexír koníaki. Síðla á föstudagskvöldinu fór hálsbólgan reyndar að láta á sér kræla einu sinni enn. Ég hafði verið að drekka rauðvín síðustu klukkutímana á undan, en komst á endanum að því að ég þyrfti greinilega að fá mér eitthvað meira bakteríudrepandi og tók þann kost að reyna að drekkja hálsbólgunni í viskíi. Það skilaði sér í rækilegum höfuðverk á laugardeginum, þannig að honum var að mestu eytt í svefn. Það var ekki nógu sniðugt. En það voru þó bara minniháttar aukaverkanir, því hálsbólgan gufaði gjörsamlega upp og hefur ekki gert vart við sig síðan.

Skemmtikvöld Múrsins var annars besta skemmtun – ritstjórn Múrsins lék Atómstöðina með miklum glæsibrag, undir augljósum áhrifum frá hinum margverðlaunaða leikhóp Hörpunni. Sá kynusli sem einkennt hefur sýningar Hörpunnar sveif til dæmis rækilega yfir vötnum og var mikill kostur á uppfærslunni. Ekki verður gert upp á milli einstakra leikara, þó rétt sé að nefna að sumir þeirra voru duglegri að draga athyglina að sjálfum sér en aðrir, sbr. hina fleygu setningu: „ég, sósíalíska bakarastúlkan, sem er augljóslega með alltof lítið hlutverk í þessu leikriti“ – skyldi bloggfrægðin vera farin að stíga mönnum til höfuðs?! ;) Annars var þetta í ágætis samræmi við þann póstmóderníska heildarblæ sem einkenndi sýninguna.

Skemmtikvöldið var einnig merkilegt fyrir það að snúast eiginlega upp í allsherjar bloggarapartí. Þarna hitti ég marga góða bloggara, til dæmis tvo sem ég hafði ekki áður kynnst í raunheimum (Orminn og Gneistann – sá síðarnefndi heldur því reyndar fram að hann sé ekki bloggari en það er augljós sjálfsblekking), auk bloggara sem voru mér að góðu kunnir í raunheimum fyrir, en ég hitti ákaflega sjaldan (Tryggva Má, Kristbjörn og Arnór – sem átti síðar um kvöldið eftir að skoða styttur bæjarins í meira návígi en flestir kæra sig um), að ógleymdum bloggandi hlutanum af ritstjórn Múrsins.

Jæja, þetta var föstudagskvöldið fyrir hálfri annarri viku. Kannski geri ég seinna einhverja grein fyrir öðrum atburðum í lífi mínu á þessu bloggauðnartímabili. Kannski ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli