laugardagur, 9. nóvember 2002

Eiginlega ætlaði ég ekki að kjósa í prófkjöri Samfylkingarinnar. Í gær komst ég samt að því að mér væri ekki nógu sama um úrslitin, þannig að ég dreif mig á kjörstað í dag. Eftir drjúga bið í langri röð komst ég loksins að en þegar ég sagði starfsmanninum hvað ég héti fékk ég spurninguna: „Ertu búin að fylla út inntökubeiðni?“
„Ha?!“ svaraði ég – í tóni sem átti að gefa undrun til kynna og kannski líka hneykslun á því að smalanirnar væru svo miklar að starfsmennirnir gerðu ekki ráð fyrir því að þeir sem kæmu að kjósa væru á félagaskrá fyrir.
„Ja, þú ert ekki á kjörskrá,“ var svarið sem kom þá.
Ég upplýsti manninn um að ég hefði gengið í Alþýðubandalagið fyrir áratug og það hefði dugað til að ég fengi sendan kjörseðil í prófkjörinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor (kaus samt ekki) og Evrópukosningunni um daginn (kaus ekki heldur).
„Ó,“ sagði hann. „Ja, þetta er búið að gerast nokkrum sinnum í dag.“
Merkilegar kjörskrár sem þessi flokkur er með í gangi. Fólki eru sendir kjörseðlar þegar það hefur ekki áhuga á að vera með, en þegar maður gerir sér sérstaka ferð á kjörstað er kjörskráin allt í einu öðruvísi. Ég lét mig hafa það að fylla út sérstaka inngöngubeiðni (mér til lítillar ánægju) svo ég gæti kosið þá sem ég vildi – og kosið ekki þá sem ég vildi ekki, sem mér fannst ekki síður mikilvægt!

P.S. Prófkjörsorðabókin hans Marðar er brilljant!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli