þriðjudagur, 19. nóvember 2002

Gat engan veginn ákveðið hvort ég ætti að fara á danska mynd í bíó eða horfa á Bond á vídeói, þannig að ég gerði einfaldlega hvort tveggja. Fór í bíó klukkan sex og kom svo við á vídeóleigu á leiðinni heim. Fannst þetta fyrst „alveg brilljant lausn“, en kannski hefði ég betur gert eitthvað annað, eftir á að hyggja. Þótt það væri gaman að heyra dönsku olli myndin sem ég sá í bíóinu nefnilega vonbrigðum. Sú hét Anja & Viktor og fjallaði um samnefnd skötuhjú sem voru par við upphaf myndarinnar, síðan kom hitt og þetta uppá, en að lokum náðu þau aftur saman. Sem meikaði alls engan sens, þar sem maður sá ekki að þau ættu saman að neinu leyti. Nema reyndar voru þau bæði heimsk og leiðinleg. Það áttu þau vissulega sameiginlegt. En það hefði samt verið til mikilla bóta að klippa nokkrar mínútur aftan af myndinni. Og hverjum datt í hug að nota slow motion þegar Viktor hljóp til móts við Önju þegar hún birtist í flugstöðvardyrunum (eftir að hafa hætt við að fara í burtu)?! Æi. Það á ekki að gera manni þetta.

Þetta virðist vera dagur illa valinna kvikmynda hjá mér. Á vídeóleigunni tók ég Diamonds are forever. Það voru mistök, sem sést kannski best af því að vídeóið mitt ákvað að hafa sjálfstæðan vilja og reyna að hafna spólunni – í miðri mynd stoppaði tækið semsé af sjálfsdáðum og ældi henni út úr sér. Merkilegt. Ég kom ekki nálægt einum einasta takka á tækinu sjálfu eða fjarstýringunni, og sé því enga aðra skýringu en þá að tækinu hafi ekki líkað myndin. Enda horfði ég á From Russia with Love í gær, sem er mjög ofarlega á listanum yfir uppáhalds-Bond-myndirnar mínar, ef ekki í efsta sæti, þannig að samanburðurinn var „demöntunum“ mjög óhagstæður. Þetta hlýtur að vera langsamlega versta Connery-Bond-myndin, enda var Connery eiginlega hættur þegar hér var komið sögu og George Lazenby búinn að leika Bond í fyrsta og síðasta sinn. Connery hefði betur sagt „never again“ og staðið við það

Kannski ég láti sjónvarpið um að hafa ofan af fyrir mér annað kvöld. Þótt ég hafi margt við Bráðavaktina að athuga í vetur er ennþá fjarri því að ég geti hugsað mér að missa úr þátt. Það hafa áður komið djúpar lægðir í Bráðavaktinni þannig að ég held enn í vonina um að gallarnir á þessari seríu séu tímabundið klúður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli