fimmtudagur, 5. desember 2002

Enn fjölgar í bloggheimum. :) Kári bróðir minn er nefnilega mættur á svæðið. Það eru mikil gleðitíðindi. Reyndar er langt síðan ég hvatti hann til að byrja að blogga, því síðan ég kynntist blogginu hef ég verið handviss um að hann yrði þrusugóður bloggari. En tók hann mark á stóru systur sinni? Ó, nei, ekki í byrjun, þá fékk ég bara svarið. „Æi, ég er ekki nógu sjálfhverfur!“ En nú hefur hann séð að sér; ég óska honum til hamingju með það og býð hann innilega velkominn í bloggheima.

Annars hef ég aldrei getað séð að blogg sé sérlega sjálfhverft fyrirbæri. Og mér er líka óskiljanlegt hvernig er hægt að láta blogg fara í taugarnar á sér. Einn af ótalmörgum kostum bloggsins er nefnilega að það ætti að vera ákaflega auðvelt fyrir fólk sem er laust við áhuga á þessum menningarkima að leiða hann hjá sér. Bloggið getur varla þvælst fyrir neinum. Það er tiltölulega afmarkaður heimur; varla fer nokkur inn á bloggsíðu öðruvísi en af fúsum og frjálsum vilja. Auk þess held ég að fæstir bloggarar tali að ráði um bloggið sitt nema í mesta lagi við aðra bloggara. Það er allavega mín reynsla.

Sjálf lít ég á bloggið mitt sem eins konar opið bréf til vina minna, og geri ekki ráð fyrir að neinn hafi gaman af því (og lesi það) nema vinir mínir eða fólk sem er andlega skylt mér á einhvern hátt. Öðrum er að sjálfsögðu frjálst að lesa hvaða blogg sem er, en bloggarar geta varla borið ábyrgð á sálarangist eða pirringi þeirra sem finnst það leiðinlegt, enda reyna fæstir bloggarar að troða blogginu sínu upp á neinn. En kannski ætti að bæta nokkrum orðum við fyrirsögnina á öllum bloggsíðum: „Lesist á eigin ábyrgð“? Og þó. Er ekki óhætt að líta svo á að það sé sjálfgefið?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli