fimmtudagur, 12. desember 2002

Í gærkvöld fékk ég tvöfaldan Bráðavaktarskammt, þökk sé Hirti sem lánaði mér spólu með þættinum frá í síðustu viku af einstakri manngæsku. Gaman, gaman, frábært, meiriháttar, ekki síst því þetta var með allra betri skömmtum. Bráðavaktin hefur virkilega náð sér á strik aftur eftir slakt upphaf á seríunni í haust (eða var það í sumar?). Ég væri samt alveg til í að losna við nokkrar leiðindapersónur. Í efsta sæti óþolandi-listans er Mark Greene reyndar ekki lengur (en hvað ég vona samt að heilaæxlið fari að drepa hann), það er orðið allnokkuð síðan hann féll niður í annað sæti. En hver skyldi hafa tekið við toppsætinu nema „the evil daughter“, Rachel. Úff, hvað ég vona að henni verði fyrirkomið fljótlega. Eiginlega finnst mér að það ætti að banna aðalpersónunum að eiga börn. Allavega ættu þau ekki að fá að sjást í þáttunum. Þau eru næstum verri en foreldrar aðalpersónanna sem ætti að vera búið að gera útlæga úr þáttunum fyrir löngu. Sérstaklega mæðurnar. Ja, og feðurna sennilega líka – einhverjar mestu kvalir sem Bráðavaktin hefur valdið mér voru þegar heilu þættirnir fyrir nokkrum árum snerust um Mark og Doug að takast á við feðrakomplexa einhvers staðar úti í eyðimörk. Það er nógu slæmt (og ætti að vera bannað) þegar heilir þættir gerast annars staðar en á bráðavaktinni sjálfri, en það var virkilega bætt gráu ofan á svart með því að blanda feðrakomplexunum saman við. Oj bara. Ömmur eru hins vegar í lagi, allavega amma Carters. Hún er skemmtileg.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli