miðvikudagur, 18. desember 2002

Ármann er með getraun um Barist til sigurs, sem er góð bók, en ég held að liðir a og c séu aðalástæðurnar fyrir því að hann hefur ekki fengið nein svör. Ég hef alla vega fátt um málið að segja (af báðum þessum ástæðum), enda er alltof langt síðan ég hef lesið bókina (og finnst verðlaunin með eindæmum óspennandi). Man þó að einn ráðherrann hét Sómi, annar Hreinn, ein af borgunum sem Starkaður var sendur til hét Skarkalaborg, þar átti hann að þagga niður í fuglum, annars staðar þurfti hann að stöðva stórhættulegar kirkjur, í einni borginni var verkefnið að gera granateplatréð sem á uxu handsprengjur skaðlaust (var það ekki fyrsta þrautin?), svo þurfti hann að lækna hnúðnef, að ógleymdum Þrándi greyinu (þ.e. hann átti ekki að lækna hann, heldur losa íbúana í einni borginni undan ógninni sem af honum stóð). Nú og sjöunda þrautin var að sjálfsögðu að setjast í hásætið illræmda. Eftir að það var búið að láta hann fleygja sér niður úr kirkjuturni, en ráðherrarnir voru svo óforskammaðir að ógilda þá þraut fyrst Starkaður drap sig ekki á henni!

Það er ekki spurning að ég þarf að endurnýja kynnin við þessa bók. Jan Terlouw skrifaði ýmislegt fleira skemmtilegt. Ætli hin bókin sem Ármann er að spekúlera í sé ekki Dulmálsbréfið? Kristbjörn nefnir síðan bók „um óveður, flóð og fleira“; sú heitir hét Fárviðri, ef ég man rétt. Stríðsvetur, sem Kristbjörn nefnir líka, er allt önnur bók, mig minnir að hún gerist í seinni heimsstyrjöldinni; gott ef hollenska andspyrnuhreyfingin kemur ekki töluvert við sögu. Og svo man ég vel eftir eini bók í viðbót: Í föðurleit sem gerist í Sovétríkjunum og fjallar um strák, Pétur Sergejevits, sem leggur upp í ferð til að leita að föður sínum sem hafði verið sendur í fangabúðir í Síberíu.

Allt mjög góðar bækur og alltof langt síðan ég hef lesið þær. Kannski ég reyni að ná mér í þær strax eftir jól.

1 ummæli: