miðvikudagur, 18. desember 2002

Fyrirspurn hefur borist um orðið lillagulur sem ég hef stundum fært í tal án nánari útskýringa. En nú er komið að fræðsluhorninu.

Trúlega er litarorðið lillagulur fæstum lesendum kunnugt þótt allir þekki lillabláan sem lýsir ákveðinni tegund af ljósfjólubláum lit. Forliðurinn lilla- er sama orðið og lilla á dönsku og lila á þýsku sem eru höfð um fjólubláan lit í þeim málum. Forliðurinn í orðinu lillagulur er hins vegar af allt öðrum uppruna.

Það bar eitt sinn til að nokkrir stúdentar sátu á kaffistofunni í Árnagarði og rifjuðu upp áföll sem þeir höfðu orðið fyrir í æsku. Hörmungarnar voru af ýmsum toga, en þær allra verstu tengdust skelfilegasta barnaefni allra tíma: Brúðubílnum.

Þegar stúdentarnir báru saman bækur sínar kom í ljós að það var ekki síst Lilli api sem hafði valdið þeim ómældu hugarangri frá barnæsku og þess voru jafnvel ýmis dæmi að hann skyti enn enn upp kollinum í martröðum þeirra.

Það varð að ráði að stofna samstundis stuðningshóp þar sem stúdentar gætu veitt hver öðrum áfallahjálp vegna þessa. Hann tók þegar til starfa af miklum krafti á fyrrnefndri kaffistofu og bar margt á góma í umræðunum.

Eins og allir vita er öllum nauðsynlegt að þekkja óvini sína vel. Þess vegna þótti hópnum brýnt að kryfja einkenni apans til mergjar, og gerði það m.a. eitt sinn að umræðuefni hvort hann væri fremur rauðbrúnn eða rauðgulur. Nokkurn tíma tók að komast að niðurstöðu en þar kom að glöggur stúdent veitti því athygli að ný peysa sem annar viðstaddur stúdent klæddist var merkilega lík apanum organdi á litinn. Fram til þessa hafði liturinn oftast verið kallaður appelsínugulur eða rauðgulur en vegna líkindanna við litaraft Lilla fékk hann samstundis nafnið lillagulur. Ekki er ljóst hvort eigandi peysunnar hefur klæðst henni aftur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli