miðvikudagur, 14. desember 2005

Núna er víst bjartasti tími dagsins. Samt er ekki bjartara en svo að það er kveikt á ljósastaurunum. Þó er aðeins minna lágskýjað í dag en síðustu daga þannig að ástandið er ofurlítið skárra - en það vantar samt nauðsynlega snjó til að bjarta birtumálunum.

En bráðum kemst ég úr landi um stundarsakir og það verður gott. Ég ákvað nefnilega fyrir dálitlu síðan að taka til minna ráða út af skorti á jólafríi og búa það til sjálf. Blessunarlega á ég nokkra sumarfrísdaga eftir og ég ákvað að þetta væri rétti tíminn til að nota þá. Og þegar sú ákvörðun hafði verið tekin lá beint við að nota tækifærið og flýja land. Palli og Roland eru svo elskulegir að lána mér íbúðina sína í London - og til þeirrar afbragðsborgar ætla ég semsagt að halda á Þorláksmessu og vera fram yfir áramót. Væri sennilega dauð úr tilhlökkun ef ég hefði haft tíma til að hugsa um þetta upp á síðkastið. Hef samt náð að skipuleggja svolítið þrátt fyrir tímaskort og er búin að kaupa þrjá miða í leikhús o.þ.h.; seinnipartinn á aðfangadag ætla ég á leiksýningu um katótískt indverskt brúðkaup með viðeigandi tónlist og dansi í Riverside Studios í Hammersmith (íbúðin sem ég verð í er rétt hjá - mjög heppilegt); á annan í jólum ætla ég að sjá Hnotubrjótinn hjá Konunglega ballettinum og tveimur dögum eftir það ætla ég á leikritið As you desire me eftir Pirandello. Svo geri ég fastlega ráð fyrir að finna mér ýmislegt fleira skemmtilegt að gera. Get ekki beðið eftir að komast af stað.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli