föstudagur, 2. desember 2005

Stundum þegar ég er kvefuð held ég að ég sé líka heimsk, því þegar manni líður eins og hausinn sé fullur af bómull hlýtur að þrengja að heilanum. Svona er ástandið í dag - en rétt áðan kom í ljós að heimskan var ekki ímynduð. Reyndar þarf ég ekki að vera kvefuð til að vera meðvitundarlaus þegar ég klæði mig á morgnana (eins og sumt fólk sem hefur umgengist mig veit vel) en oftast uppgötva ég klúðrið samt fyrir hádegi. Nú er klukkan hins vegar farin að ganga sex og ég er nýbúin að taka eftir lykkjufallinu niðri á kálfa sem kom síðast þegar ég var í þessum sokkabuxum. Ef ég hefði verið í síðu pilsi væri þetta ekki vandamál og þess vegna lakkaði ég bara lykkjufallið á sínum tíma og henti sokkabuxunum ekki (enda nýtin stúlka) - en pilsið mitt í dag nær varla niður á mitt læri þannig að lykkjufallið var svolítið áberandi. Ætli vinnufélagarnir hafi haldið að ég væri að reyna að starta nýju trendi og þess vegna ekki sagt neitt? Ég dreif mig svo út í apótek að kaupa nýjar sokkabuxur en að sjálfsögðu tókst mér að rífa þær um leið og ég klæddi mig í þær. Bjáni. Eins gott að kápan mín er ökklasíð og að það er myrkur í leikhúsi (ákvað að drífa mig á Frelsi, þrátt fyrir kvefið; sem betur fer er ég hvorki með hósta né nefrennsli að ráði (bara fullan haus af bómull) þannig að það ættu ekki að verða mikil læti í mér).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli