sunnudagur, 15. janúar 2006

Loksins búin að koma mér upp myndasíðu. Búin að setja inn myndir frá London og nokkrar Reykjavíkurmyndir. Ítalíumyndirnar frá í sumar koma seinna, og líka myndirnar sem ég tók í Tallinn í október. Vitnisburður um afar gott útlandaár hjá mér, og reyndar var árið almennt stórfínt. Ánægð í vinnunni, byrjaði aftur í MA-náminu mínu eftir nokkurra ára drukknun í brauðstritinu, komst heilmikið úr landi ...

Sit núna fyrir framan sjónvarpið og bíð milli vonar og ótta eftir að sjá hvort íslenski glæpaþátturinn verður góður, skikkanlegur eða hræðilegur.

Ætlaði annars alltaf að segja nánar frá Lundúnaferðinni en eftir því sem lengra líður gengur sífellt verr að komast í verkið. Æ, þetta var bara svo góð ferð. Gekk og gekk og gekk eins og við mátti búast, fór á slatta af söfnum o.þ.h. (National Gallery, National Portrait Gallery, British Museum, Tower of London, Design Museum, Tate Britain og Tate Modern), fór á þrjár leiksýningar og einn ballett, borðaði helling af alls konar góðum mat: enskum, frönskum, ítölskum, ungverskum, japönskum, taílenskum, víetnömskum, indverskum, fransk-indverskum... Og hafði það almennt afar notalegt. Besti maturinn var á Cinnamon Club á aðfangadagskvöld - einhver besti matur sem ég hef nokkurn tíma fengið. Sverðfiskur í aðalrétt, þorskur í forrétt (já, jólamaturinn minn var þorskur og hann var frábær!), fljótandi eyja með mangósósu á eftir, kaffi og konfekt, allt saman afbragð. Á þennan stað ætla ég tvímælalaust aftur og líka á Vasco and Piero's Pavilion. Algjör snilldarmatur.

Fram að þessu hafði ég bara stoppað tvo til fjóra daga í London og langaði ofboðslega að ná a.m.k. viku til tíu dögum þar. Nú hafðist það - ég var ellefu daga - en þá langar mig að vera allavega mánuð. Fæ aldrei nóg!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli