þriðjudagur, 3. janúar 2006

Komin heim. Eins og venjulega er nóg sem pirrar mig undireins og ég kem til landsins, og það byrjar strax og komið er inn í flugstöðina sem er vægast sagt undarlega hönnuð bygging. Mér finnst alltaf jafn merkilegt hvernig er hægt að hafa eins langar gönguleiðir á svona litlum flugvelli - fyrir utan ferðir upp og niður stiga sitt á hvað. Fyrst á dagskrá þegar ég kom inn úr vélinni var að ganga niður stiga, síðan tók við krókaleið að öðrum stiga sem þurfti að ganga upp, og þá var gengið og gengið og gengið og gengið (virtist endalaust) að þriðja stiganum þar sem leiðin lá niður á ný. Ekki að ég víli venjulega fyrir mér að ganga mikið og lengi - en svona langar leiðir inni í byggingum eins og þessum eru bara fáránlegar. Ég vorkenni fótfúnu fólki mjög að þurfa að komast þarna um.

Veðrið í Keflavik er líka vant að gleðja mann - eða þannig. Reyndar var hvorki rigning né rok núna, en í staðinn var þungskýjað og fáránlega dimmt miðað við að klukkan var ekki orðin fjögur.

Ég hef aldrei haft neitt sérstakt á móti flugrútunni en það breyttist í dag því nú er farið að spila af bandi leiðinlega ræðu flutta af smjörborinni rödd þegar lagt er af stað. "Velkomin ... bla, bla, bla ... drive through the lava fields of the Reykjanes peninsula ..." Og skelfileg tón"list" leikin undir. Oj bara.

Það verður ágætt að fara aftur í vinnuna - að öðru leyti er frekar tilgangslaust að vera á þessu landi. En ferðin var góð og ég á lengi eftir að rifja hana upp. A.m.k. með sjálfri mér - kannski líka hér á blogginu næstu daga, ef ég nenni.

Æ, já, ég var næstum búin að gleyma: Gleðilegt ár!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli