fimmtudagur, 18. maí 2006

Jæja - vegabréfið og vísakortið eru á sínum stað og síminn hennar mömmu líka (sem hún var svo góð að lána mér svo ég gæti verið í sambandi við umheiminn, sex ára gamli tvíbanda síminn minn virkar víst ekki í Ameríku), staðfestingar á gistipöntunum eru líka með (verð viku í kojuplássi á farfuglaheimili, splæsi svo hóteli síðustu þrjár næturnar), ferðahandbækurnar eru í handtöskunni (kannski ætti ég samt að skilja aðra ferðahandbókina eftir heima?) og annar farangur er kominn í stærri töskuna (þakka góð ráð).

Ritgerðin sem ég ætlaði að klára áður en ég færi er komin vel á veg - en ekki búin. Hef smá smugu eftir heimkomuna. Úff.

Ég er hins vegar búin að kjósa, búin að fara í klippingu (má nokkuð fara til útlanda með skelfilega slitið hár?) og búin að prógrammera vídeóið mitt til að taka upp Júróvisjón. Er ég þá ekki bara í nokkuð góðum málum?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli