miðvikudagur, 23. ágúst 2006

Gönguskórnir fundust ekki en um daginn eignaðist ég loksins aftur gúmmískó, mér til mikillar gleði, eftir að hafa verið án þessa grundvallarskófatnaðar í fjölmörg ár. Gúmmískór virka vel í göngum og helgin var frábær. Ég er sólbrunnin á bakinu, rispuð á löppunum eftir víðinn í Sellöndum, með heilmarga marbletti á lærunum eftir að draga sundur féð og enn með agnarlitla strengi í utanverðum kálfunum (undarlegur staður) eftir þúfnahlaup - en afskaplega sæl og ánægð. Allt gekk vel - eiginlega ótrúlega vel. Ef ég væri rolla hefði ég ekki viljað láta smala mér þessa daga því það var brakandi sól og steikjandi hiti þannig að við þurfum að fara mjög hægt til að sprengja ekki féð en skemmtileg aukaverkun af því var hversu mikill tími gafst til að njóta náttúrunnar. Nokkrar gangnamyndir komnar inn á flickr-síðuna mína, kannski bætast fleiri við seinna.

Gúmmískór

Engin ummæli:

Skrifa ummæli