þriðjudagur, 24. janúar 2006

Afmælisdagurinn er að klárast og ég komst einhvern veginn aldrei að því hvað ég ætlaði að gera í tilefni dagsins þannig að það varð lítið um hátíðahöld. Ákvað reyndar að tékka á sushi-staðnum í Iðu eftir vinnu en var ekkert yfir mig hrifin. Sennilega er ég frekar gagnrýnin á sushi; mér finnst t.d. ekki æskilegt að færibandið sé yfirfullt þegar lítið er að gera, það vekur bara spurningar um hversu lengi maturinn sé búinn að vera þarna, og ég fékk á tilfinninguna að sumt væri búið að vera þarna heldur lengi (og að sumt hefði reyndar aldrei verið alveg nógu gott, t.d. var túnfiskurinn afar fráhrindandi (en mér finnst góður túnfiskur æði)). Staðurinn lendir að vísu líka í óheppilegum samanburði þar sem ég er nýbúin að borða (oftar en einu sinni, m.a. dásamlega máltíð á gamlárskvöld) á miklum uppáhalds-sushi-stað mínum í London : Kulu Kulu Sushi í Brewer Street - pínulítill staður þar sem ekkert er lagt í innréttingar og engiferið og wasabi-ið er bara í plastdöllum, en allt virðist mjög ferskt og ekta.

Nú, jæja, eftir þetta ákvað ég, þrátt fyrir okurverð hérlendi, að splæsa á mig uppáhalds-kokteilnum mínum frá því á Ítalíu í sumar sem ég hafði séð á listanum á b5. Það sem ég fékk var ágætt en stóðst ekki samanburðinn við neina af þeim ólíku gerðum af þessum góða kokteil sem ég fékk á Ítalíu.

Sennilega er vandamálið að ég vildi helst vera í útlöndum. (Einhverjir lesendur hafa kannski dregið skarplega ályktun um það efni af ítrekuðum kveinstöfum yfir þessu fúla landi síðustu árin.)

En allavega: Ég er orðin þrjátíu og eins. En samt bara degi eldri en í gær þegar ég var þrítug. Svona er þetta. Einn dagur í einu breytir ýmsu. Eða ekki. Mér finnst ég svosem ekkert mikið öðruvísi en í gær. Eða fyrradag. Eða í fyrra. Eða hitteðfyrra. O.s.frv. (a.m.k. nokkur ár aftur í tímann).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli